Ályktun Samtaka Fullveldissinna

Á fundi Samtaka Fullveldissinna þ. 25 maí 2009 var samþykkt eftirfarandi ályktun varðandi umsókn um inngöngu í ESB:

Samtök fullveldissinna krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu
Fundur Samtaka fullveldissinna haldinn í Reykjavík 25. maí beinir því til Alþingis og ríkisstjórnar að þjóðin fái að taka afstöðu til aðildarumsóknar að ESB í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samtök fullveldissinna telja að fyrirliggjandi þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn feli í sér svo afgerandi stefnubreytingu frá gildandi Stjórnarskrá lýðveldisins að ekki sé fært að stjórnvöld stígi slíkt skref án þess að þjóðin komi með beinum hætti að þeirri ákvörðun.

Þá vara Samtök fullveldissinna við þeim fyrirætlunum að senda sitjandi utanríkisráðherra á fund ESB með fjöregg og fullveldi þjóðar í farteskinu.

Greinargerð

Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri grænir og Framsóknarflokkur hafa allir á einhverjum tímapunkti haldið fram þeirri stefnu að bera ætti mögulega aðildarumsókn undir þjóðaratkvæði áður en ráðist yrði í að leggja aðildarumsókn fram. Þá hefur Borgarahreyfingin á stefnuskrá sinni að auka beint og milliliðalaust lýðræði.

Jafnfram er ljóst að um árabil hafa þeir sem harðastir eru gegn aðild að ESB barist gegn því að setja málið á dagskrá með þjóðaratkvæði um aðildarumsókn. Það réttlætir ekki að tillaga um aðildarumsókn skuli nú lögð fram án aðkomu þjóðarinnar.

Í því öngþveiti sem nú ríkir í íslenskum stjórnmálum hafa nokkrir af áköfustu ESB talsmönnum þjóðarinnar sætt því færi að halda fram nauðsyn þess að leggja aðildarumsókn fram í flýti en jafnvel þó leggja ætti umsókn fram á þessu ári er vel tími til að leyfa þjóðinni að segja hér álit sitt í almennri atkvæðagreiðslu. Raunar er vafamál að slík atkvæðagreiðsla taki lengri tíma en það annars tekur Alþingi að afgreiða þingsályktun um aðildarumsókn.

Þau rök að ekki gefist hér tími til að efna loforð um beint lýðræði í þessu veigamikla máli halda því ekki við nánari skoðun. Þá hafa komið fram þau rök að ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar til að þjóðin geti tekið afstöðu en slík rök hlytu þá jafnt að eiga við um atkvæðagreiðslu þá sem framundan er á hinu háttvirta Alþingi. Staðreyndir málsins eru að enginn getur greitt atkvæði með aðildarumsókn nema hjá hinum sama sé nokkur vilji til að Ísland renni saman við ESB og fyrir slíkri atkvæðagreiðslu liggja nægilegar upplýsingar.

Engin nauðsyn er að gefa kosningum um aðildarumsókn langan frest kosningabaráttu enda ekkert mál hlotið viðlíka umfjöllun á liðnum árum.

Miklu skiptir í þessu sambandi að umsókn um aðild að ESB gengur þvert gegn meginreglum og stefnu Stjórnarskrár lýðveldisins. Því er mikilvægt að Alþingi stígi ekki slíkt skref án þess að hafa annað tveggja breytt Stjórnarskránni með lögformlegum hætti eða hafi tryggan meirihluta landsmanna að baki sér áður en farið er í aðildarviðræður.

Stjórn Samtaka fullveldissinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Ísleifur, einnig tel ég að 2/3 þurfi að samþykkja svona veigamikla ákvörðun.

Már Wolfgang Mixa, 26.5.2009 kl. 19:09

2 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Ég er alveg sammála þér Már, að einfaldur meirihluti geti tekið svona afdrifaríka ákvörðun er algjörlega ótækt.

Ísleifur Gíslason, 26.5.2009 kl. 20:06

3 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Íslefur, tek undir með Már um að 2/3 þurfi til að samþykkja svona afdrífarika tillögu fyrir ísenska þjóð.  Hef hvergi séð sagt frá þessari
samþykkt  nema á  amx.is - Er það satt?  Því fjölmiðlar eru meir og
minna sýktir af ESB-óværunni.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 26.5.2009 kl. 20:56

4 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Það þarf mikið til að sannfæra mig um að innganga í ESB væru til heilla fyrir þessa þjóð....okkar þjóð...íslendinga.

Það er talað um þjóðar-atkvæði þurfi til að  ákveða hvort við göngum í ESB. Guð láti gott á vita !!!!!

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 26.5.2009 kl. 22:57

5 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Smugan og amx eru einu miðlanir sem birtu ályktunina.

Mér finndist eðlilegt ef að um verður að ræða tvennar atkvæðagreiðslur að í þeirri fyrri, þ.e. að gefa ríkisstjórn heimild til að sækja um aðild, myndi nægja einfalldur meirihluti, en í þeirri sem snýr að samþykkja aðild sem slíka ætti að vera aukinn meirihluti, og fyrir því eru fordæmi þegar breyting fyrirkomulaga þjóðríkissins er mikil, s.br. atkvæðagreiðslu um að afnema konungstengslin.

Axel Þór Kolbeinsson, 27.5.2009 kl. 09:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband