Ég fó í Norræna húsið á menningarnótt til að heyra um 'Torg í borg' þar sem dóttir mín var ein af panel gestum. Því miður fór það svo að umræðan fór að mestu fyrir ofan garð og neðan hjá mér þar sem ég er alvarlega heyrnarskertur og ekki virðist vera gert ráð fyrir svoleiðis gestum í ráðstefnusal.
Mér finnst þetta frekar lélegt í svo merkilegu húsi sem Norræna húsið ku vera og þetta á að vera vandræðalaust að lagfæra með því að tengja hljóðnema í kerfi sem skilar svokallaðri T bylgju út í hátalarana þar sem þeir sem eru með heyrnartæki geta stillt þau til að taka við þessari útsendingu og breyta í heyranleg hljóð fyrir viðkomandi. Svona kerfi er t.d. í flestum kirkjum hér á höfuðborgarsvæðinu og öðrum samkomustöðum.
Ég fékk þó staðfest það álit mitt að ekki eru nein torg í Reykjavík nema ef vera skildi Austurvöllur.
Bloggar | 1.9.2008 | 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég var á ferð um Fellsströnd með Arndísi konunni minni síðustu helgi og var bent á að renna niður Dagverðarnes því það væri sérstakt yfir að líta og að við hefðum máske gaman af að skoða kirkjuna þar.
Mikið rétt, nesið og fuglalífið var gaman að skoða eins og margt annað á þessum slóðum. En ósköp fannst mér þjóðkirkja flestra íslendinga setja niður þegar kom að kirkjunni litlu og garðinum við hana. Kirkjan sjálf í niðurníðslu (sjá myndir), einfalt gler meira og minna laust í gluggum, trékrossinn á mæninum að grotna i sundur og garðurinn í algjörri niðurníðslu utan eitt leiði sem eitthvað virðist vera hugsað um af aðstandendum hinna látnu.
Mér skilst að enn sé stöku sinnum messað í þessari litlu kirkju og að hún og garðurinn teljist helg, en á bágt með að skilja hvers vegna þetta ríka þjóðkirkjubákn getur ekki tekið ögn af sjóðum sínum til að sína þessum gamla sögustað dálitla virðingu.
Bloggar | 10.7.2007 | 01:32 (breytt kl. 01:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)