Færsluflokkur: Bloggar
Eru þessir viðskipta og sölumenn ekki með öllum mjalla?
Vita þeir ekki að það er til heimur utan ESB?
Er EES ekki nóg fyrir þá til að geta gert viðskipti við Evrópu?
Hvað með Kína og löndin í suðaustur Asíu, Ameríku frá Alaska og suður undir Tiera del Fuego, er ekki hægt að skipta við þessar þjóðir án milligöngu ESB? eða hvað??
![]() |
Vilja halda í átt að Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 12.3.2009 | 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þetta er ekki rétt! L listinn vill samskipti við sem flest þjóðlönd, ekki bara ESB eða þau sem eru í náðinni hjá þeim í Brüssel.
http://l-listinn.blog.is/blog/l-listinn/entry/826066/
L listinn fagnar því hve Ísland hefur nú orðið á að skipa fjölþjóðlegu samfélagi, að hér geti í sátt og samlyndi rúmast fólk af öllum mögulegum kynþáttum, trúarbrögðum og kynheigð.
Við styðjum Félag Anti-Rasista og ÍFA - ìsland fyrir alla sem hvort tveggja má lesa um á Facebook
L listinn er fyrir alla Íslendinga hvert svo sem ætterni þeirra er og vonast til að sem flestir sjái sér hag í að styðja okkur til dáða.
Þeir sem hafa áhuga á að vinna með L-listanum er bent á að senda tölvupóst á frjalstframbod@gmail.com

Bloggar | 11.3.2009 | 23:11 (breytt kl. 23:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nú hefur bloggsíða L-listanns verið opnuð. Til að byrja með höfum við sett inn nokkrar greinar og færslur stuðningsfólks okkar. Hægt er að lesa nánar um listan með því að smella á um L-listann eða smámyndina af merki listans.
Slóðin er: http://l-listinn.blog.is/blog/l-listinn/
Bloggar | 11.3.2009 | 02:09 (breytt kl. 02:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
L -listinn er lokkandi
Með lausnir fyrr alla
Skýst á Alþing skokkandi
Spáný lög að malla
Bloggar | 11.3.2009 | 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á fundi stuðningshóps L -listans á Súfistanum í kvöld var góður andi og sammælst um að koma jákvætt að hlutunum, finna lausnir og vinna þeim fylgi.
Ekki stóðst undirritaður þó mátið að tala um þvílík firra það væri hjá sumu fólki sem héldi því fram að ESB gæti einhverju bjargað um ástandið hér á landi.
1. Það tæki trúlega 3 til 4 ár að umsókn yrði samþykkt.
2. Eftir inngöngu í sambandið mætti líklega bíða annan eins tíma eftir að komast á Evru-spenann.
Sem sagt ESB bjargar engu enda Evran trúlega líka á leið í vaskinn.
Við L -listafólk munum leita lausna fyrir alla í nýju lýðræði sátta og samstöðu.
listinn vill lausnir fyrir alla!
Bloggar | 10.3.2009 | 01:01 (breytt kl. 12:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Vonandi verður þetta eitthvað meira en orðin tóm hjá Steingrími og dómsmálaráðherra.
Steingrímur verður að sýna það í verki með því að veita peningum í aðstoð við sérstakan saksóknara bankahrunsins, þar þarf að ráða sérfræðinga, bretta upp ermarnar og koma sér að verki.
![]() |
Eva Joly ráðleggur ríkisstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 9.3.2009 | 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það þarf nauðsynlega að fara eftir ráðleggingum Evu Joly rannsóknardómara, og það strax.
Ég á ansi bágt með að skilja hvers vegna ekkert virðist vera að gerast í þeim málum sem eru rædd í viðtali Egils Helgasonar við Evu Joly, eða er það máski líka eitthvað sem við sauðsvartur almúginn þurfum ekki að vita.
Hér er krækja í viðtalið á RÚV:
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4440922/2009/03/08/2/
Bloggar | 9.3.2009 | 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það verður örugglega sjónarsviptir af því að Ingibjörg Sólrún hættir við framboð fyrir Samfylkinguna og óska ég henni alls hins besta í baráttunni við erfiðan sjúkdóm.
Á hinn bóginn er ekki verra fyrir okkur sem erum andsnúin inngöngu í ESB að þarna hverfur einn harðasti baráttumaður, þeirrar firru sem vill afsala sjálfstæði okkar til Brüssel og Lúxemborgar, af sjónarsviðinu í bili.
Vonandi ber Samfylkingin gæfu til að velja sér hófsamari formann en J. B. V. í formannsætið.
Ég vil benda öllum þeim sem ekki hafa áhuga á því að bukka sig fyrir Brüssel að L -listinn er góður kostur sem ber sjálfstæði lands og þjóðar fyrir brjósti.
Bloggar | 8.3.2009 | 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eftir að horfa á viðtalið við Davíð Oddson í kvöld finnst mér að skoða þurfi betur aðgerðaleysi ríkisstjórnar Geirs Haarde í aðdraganda bankahrunsins.
Ég trúi Davíð þegar hann segist hafa marg varað við komandi hruni bankaveldisins.
Hvers vegna var ekkert gert til að sporna við? Ég bara spyr.
Því miður er ég á þeirri skoðun að Davíð Oddson og kompaní í Seðlabankanum verði að víkja. Ekki vegna þess að þeir hafi brugðist þjóðinni, heldur vegna þess að þjóðin hefur snúið við þeim baki eins og glöggt mátti heyra á máli spyrils í Kastljósi.
![]() |
Fjármagnsflutningar Kaupþings höfðu mikil áhrif á Bretana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 24.2.2009 | 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég birti þessa ræðu hér með leyfi Dóru minnar vegna þess að mér þykir hún góð.
Sjá líka: http://this.is/nei/?p=2057
Ræða Dóru Ísleifsdóttur á Austurvelli
Góðir landsmenn!
Árið er nýtt. Hér er allt í kaldakoli. Gleðilegt nýtt ár! Stjórnvöld segjast vera í björgunarleiðangri og að við megum ekki eyðileggja það starf eða trufla með lýðræðinu. Óttinn er við völd á Íslandi.
En við, fólkið í þessu landi, verðum að bægja óttanum frá, treysta á okkur sjálf og gera þær breytingar sem hér eru nauðsynlegar.
Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts. Seðlabankinn ekki heldur, hvorki hér heima né erlendis. Og svo sannarlega ekki Seðlabankastjórar með Davíð Oddsson í broddi fylkingar. Alþingi er vanmáttugt. Pólitísk hrossakaup og spilling vaða uppi. Verkalýðshreyfingin gerir ekki neitt. Stjórnarandstaðan vill aftur til fortíðar. Skipting valdsins er í besta falli loðin. Dreifing valds fer minnkandi. Jafnrétti er ekki. Millistjórnendur gömlu, einkavæddu bankanna eru stjórnendur nýju bankanna ennþá. Og forseti Íslands er klappstýra hjá röngu liði.
Ísland er rúið trausti. Enda er stjórn landsins, ótrúlegt en dagsatt, enn í höndum sama fólks og flissaði ofaní kampavínsglösin sín um leið og það leiddi okkur fram af bjargbrúninni.
Við hin getum bara ekki axlað þær byrðar, sem þetta fólk hefur lagt á okkur, nema það víki aðeins þannig getum við haldið áfram. Því eina raunhæfa vonin um að endurvekja traust okkar á hvert öðru og ná sátt um framhaldið er að skipa nýtt fólk í þessar stöður.
Það verða kosningar til Alþingis fyrir vorið vorið er rétti tíminn það er orðið algerlega óhjákvæmilegt og þá verðum við að gjöra svo vel kjósa heiðarlegt, vandað og hæft fólk fólk sem er hægt að treysta til að byggja hér upp að nýju og endurhlaða gildin.
Þangað til og uppfrá því þurfum við öll að halda vöku okkar. Veita aðhald, halda uppi samræðu og gagnrýni. Ekki bara rífa niður heldur leitast við að vera réttlát, uppbyggileg, gagnrýnin og hugrökk.
Bandaríkjamenn tóku þá ákvörðun í haust að veðja á Barack Obama og það sýnir að þar heldur fólk í vonina þrátt fyrir að nánast óyfirstíganleg vandamál hrannist þar upp. Eins og um allan heim. Eins og hér.
Fleiri og fleiri telja að við, mannkynið í heild, þurfum að endurskoða, endurhugsa og endurhanna meira og minna allt. Alla okkar umgengni við jörðina, aðferðir við að afla okkur lífsviðurværis, allar okkar lífsfílósófíur og ekki síður framkomu okkar hvert við annað. Að við þurfum að finna leið til að sigla okkar sameiginlega báti eða sökkva skútunni ella.
Við sem nú erum á besta aldri stöndum frammi fyrir því að velja hvort við viljum beina kröftum okkar að því að viðhalda því kerfi og þeim geldandi hugmyndum sem okkur voru fengnar í vöggugjöf sem eru í stuttu máli ótti. Ótti við fólk sem við þekkjum ekki, óttinn við hugmyndir annarra, köld stríð, aðskilnaðarstefnur og veggir endalausir veggir. Ef við veljum þennan kost veltum við vandanum einfaldlega yfir á börnin okkar.
Eða hvort við treystum okkur til og nennum að leggja það á okkur að hefjast nú þegar handa við að breyta til batnaðar en það gerum við ekki nema leikreglurnar séu skýrar, sanngjarnar og eins fyrir alla.
Við þurfum byltingu núna áður en það verður of seint. Og ég er ekkert að tala um ofbeldi eða neinn þess háttar hrylling ég meina pólitíska,vitsmunalega og andlega byltingu. Nýjan hugsunarhátt. Byltingu í hegðun, atferli og framkomu.
Allt er uppfinning sem má taka til endurskoðunar. Þetta er ekki neitt hippabull sem ég er að segja. Þetta er staðreynd.
Olían er að klárast og við notum mikið af henni. Við göngum nærri auðlindum sem eru ekki endurnýjanlegar. Vaxandi fátækt og ójöfnuður er staðreynd og stjarnfræðilegt ríkidæmi um það bil eins prósents af mannkyninu öllu. Mannréttindi eru fótum troðin víða um lönd og eftir 11. september 2001 hafa Bandaríkin, með Bush sem forseta og vinaþjóðir hans (eins og okkur) þrengt að réttindum borgara allra landa svo um munar óttinn er við völd. Jafnrétti er ekki. Víða eru stríð, óhugnanlegir erfiðleikar og hörmungar. Trúarreglur og siðfræði ólíkra manna valda stöðugum og sífelldum árekstrum um alla jörð. Samt viljum við öll það sama. Fegurðardrottningarnar hafa margsagt það fyrir okkur við óskum eftir friði í heiminum og þar með öryggi og friði heima hjá okkur.
Við hér á Íslandi erum heppið fólk. Hér er ekki stríð. En hér hefur orðið þjóðargjaldþrot og siðferðilegt hrun. Það má laga með tímanum. En við skulum gera okkur grein fyrir því núna, að við eins og allir aðrir þurfum að vanda okkur og vera vönduð til að lenda ekki í frekari hremmingum. Við verðum að gera hér málin upp og ná sáttum.
Við erum, sem sagt, komin aftur á byrjunarreit. Við þurfum að gera róttækar breytingar strax. Höfum við hugrekki til þess?
JÁ!
VERUM ÓHRÆDD VIÐ NAUÐSYNLEGAR BREYTINGAR SÝNUM HUGREKKI OG STÖNDUM SAMAN
Við skulum forðast ofbeldi í lengstu lög. Við skulum tryggja velferð og framtíð barna okkar allra. Höfnum þjóðrembu. Höfnum eyðingaraflinu og einsleitninni sem fylgir heildarlausnum stórfyrirtækja. Höfnum kyrrstöðunni og óttanum sem hana nærir. Og við höfnum ykkur sem hafið framið hér landráð, hvort sem það var af gáleysi eða ásetningi.
Eftir kosningar í vor skulum við byggja upp fjölbreytt þjóðfélag í samfélagi þjóðanna. Sýnum að við lærum af reynslunni og byggjum framtíðina á fjölbreyttum atvinnuvegum, fjölbreyttum hugsunarhætti, aðferðum og þekkingu. Við tökum fagnandi öllu því fólki sem getur hugsað sé að búa hér og byggja landið upp með okkur. Við þökkum kærlega þeim sem reynast okkur vel og leggjum mikið á okkur til að reynast öðru fólki vel líka. Við höfum réttlæti, samúð, jafnrétti og lýðræði að leiðarljósi. Og við skulum nýta okkur betur þau tækifæri sem hér eru.
Hér er fullt af tækifærum og það kostar vissulega klof að ríða röftum en 1015% atvinnuleysi er óásættanlegt og alltof dýrkeypt.
Hvert sem litið er hér á Íslandi eru hlutir, vannýtt framleiðsluferli, félagsleg kerfi og strúktúrar, sem mætti endurhanna og gera skilvirkari og betri. Verkefnin eru óþrjótandi. Að sama skapi er hæfileikafólk sem er illa nýtt út um hvippinn og hvappinn, fólk sem hefur sérþekkingu á ýmsum sviðum þekkingu sem hætta er á að deyi út eða flytji burt og vannýtt tækifæri vegna þess að við höfum ekki lagt það á okkur að hugsa hvert verkefni til enda.
Við þurfum nauðsynlega að kjósa af þeirri einföldu ástæðu að stjórnvöld okkar og stofnanir hafa fyrirgert trausti sínu og traust er brýn nauðsyn. Því nú er allt nýtt. Og ég hef ákveðið að vera bjartsýn og treysta því að við breytum öll rétt. Nú er tímabært að hæft og vandað fólk bjóði sig fram. Það má engan tíma missa. Þið vitið hver þið eruð og hafið undirbúið ykkur í hópum og ein sér í haust. Gefið ykkur fram. Ykkur verður tekið fagnandi.
Geir og Ingibjörg og aðrir stjórnarmenn. Þið sem hafið ákveðið að bjarga sumum en ekki öllum. Þið eruð í kosningabaráttu núna. Og ef þið sýnið okkur, fólkinu, ekki með afgerandi hætti að þið vinnið í okkar þágu.
Þá eruð þið búin að vera. Þið eruð á allra síðasta sjens.
Við við sem erum ekki í klíkunni en eigum að axla byrgðarnar af fjárglæfrum annarra óstudd verðum að standa vaktina hér á Austurvelli.
Við verðum að standa hér saman .
Takk.
Bloggar | 5.1.2009 | 01:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)